Námsefnið Tuttugu töffarar

Þetta blokkflautunámsefni er ætlað 6-8 ára forskólanemendum í tónlistarskóla eða hópkennslu í tónmennt við grunnskóla. Efnið ætti líka að geta nýst byrjendum í blokkflautuleik.

Námsefnið samanstendur af nemendahefti og kennarahefti. Auk þess fylgir stafrænt undirspilsefni. Stafræna undirspilinu er ætlað að glæða kennsluna meira lífi þannig að upplifun nemenda af lögunum verði bæði gagnleg og skemmtileg.

Markmiðið með útgáfu námsefnisins er að auka úrval kennsluefnis fyrir forskólakennslu á Íslandi. Við höfundarnir, höfum í gegnum tíðina safnað saman þessu fjölbreytta námsefni og notað með mjög góðum árangri. Okkar reynsla sýnir að þetta námsefni virkar , höfðar einstaklega vel til barna af báðum kynjum og kveikir áhuga á frekara tónlistarnámi.

Bækurnar okkar

Kennarahefti

55 lög sígild og ný. Laglínur með hljómabókstöfum. Fjölbreyttar stíltegundir: Blús, Bossa Nova, Cha-cha-cha, Popp, Rokk og Techno. Stuttar kennsluleiðbeiningar og hugmyndir.

Nemandahefti

Fyrstu 10 tónar blokkflautunnar kynntir. 55 lög sígild og ný. Fjölbreyttar stíltegundir: Blús, Bossa Nova, Cha-cha-cha, Popp, Rokk og Techno. Söngtextar eru við nær öll lögin. Stutt verkefni og skemmtilegar teikningar lífga upp á efnið..

Um höfundana

Annamaria Lopa

Annamaria Lopa er ítalskur gítarleikari og kennari. Hún lærði hjá P. Garzia í Conservatory of Music “Lorenzo Perosi” í Campobasso á Ítalíu, og Oscar Ghiglia í Accademia Chigiana í Siena. Árið 1998 lauk hún M.Mus. meistaraprófið í klassískum gítarleik með hæstu einkunn. Hún tók þátt í, og vann margar tónlistarkeppnir á árunum 1994 til 2000 (International Young Musicians competitions í Barletta, Mottola, Lodi, Savona, Roma, Gargnano o.fl.). Siðar lauk hún B.Mus. gráðu í Jazzi og lærði útsetningar, improvisation og jazzsögu hjá Bob Mancini. Á sama tima kenndi hún á gítar í tónlistarskólanum í Molise, á Ítalíu, og spilaði með ýmsum hljómsveitum eins og gítar-dúói, gítar og fiðlu, gítar og flautu, gítar og sopran, kammermúsikhóp og jazz kvintett . Hún tók upp fyrsta geisladiskinn sinn með þeim Acoustic L.A.G.A.M Quintet “Nonsolojazz”. Á árunum 2003-08 lauk hún B.A. og M.Ed. prófi í tónlistar- og gítarkennslu.

Hún flutti til Íslands í júli 2009, fyrst vann hún sem ítölskukennari hjá Málaskólanum Lingva. Svo var hún deildarstjóri á Barnaheimilinu Ósi í Reykjavík, auk þess að sinna vikulegri tónlistarkennslu fyrir leikskólabörn. Í leikskólastarfinu náði hún góðum tökum á íslenskunni.

Á árunum 2011-2013 var hún Kórstjóri kvennakórs W.O.M.E.N. in Iceland hjá Samtökum kvenna af erlendum uppruna í Reykjavík. Hún hefur einnig kennt tónmment í Breiðagerðisskóla og unnið fyrir tónskólann Tóney með verkefni fyrir leik- og grunnskólanemendur, bæði á gítar, Orff-hljóðfæri og blokkflautu. Frá 2015 hefur hún sinnt gítar- og forskólakennslu við Tónlistarskólann á Seltjarnarnesi.

Ólöf María Ingólfsdóttir

Hóf tónlistarnám sitt við Tónlistarskóla Keflavíkur. Þaðan lá leiðin í Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hún útskrifaðist með B.Ed próf í tónmenntakennslu 1986. Hún sótti framhaldsnám við Det Jydske Musikkonservatorium í Árósum 1988-90 og kynntist þar mikið af þeim kennsluaðferðum sem hafa einkennt kennslustörf hennar síðan. Þar á meðal má nefna námsefni Sven Hylleberg (Blokfløjten í klassen) sem er fyrirmynd og innblástur að mörgu í námsefninu Tuttugu töffarar. Vorið 2017 lauk Ólöf María MA prófi í Menningar- og menntastjórnun frá Háskólanum á Bifröst, með meistararitgerð um tónlistarstarf í leikskólum.

Á árunum 1986-7 og 1993-2000 starfaði Ólöf María við fræðigreina- og forskólakennslu tónlistar. Þar komu við sögu Tónlistarskóli Kópavogs, Tónmenntaskóli Reykjavíkur, Tónskóli Eddu Borg, Kennaraháskóli Íslands og fjöldi leikskóla. Frá árinu 2000 til dagsins í dag hefur Ólöf María starfað við Tónlistarskóla Seltjarnarness, þar af sem deildarstjóri forskóla og tónfræðigreina frá 2003. Í því starfi hefur hún meðal annars átt sinn þátt í að móta samstarf milli tónlistarskóla og leikskóla bæjarins. Frá 1993 hefur Ólöf María haldið fjölda námskeiða og flutt fyrirlestra um tónlistarkennslu ungra barna.

Ólöf María söng með Dómkórnum í Reykjavík í 17 ár og tók þátt í öllum tónleikum og upptökum kórsins á því tímabili.

Myndagallerí

Við viljum þakka þessum nemendum fyrir þeirra framlag: Anna María Tryggvadóttir, Benjamín Árni Daðason, Dagur Benediktsson, Emma Nardini Jónsdóttir, Eva Kristinsdóttir, Helena Baranowska Bjarnadóttir, Jónatan Sigmundsson.

Umsagnir

Vai ad inizio pagina